Mjög alvarleg staða er uppi í stjórnmálum öflugasta ríkis heims, Bandaríkjunum. Eftir rúma viku verður ríkissjóður Bandaríkjanna kominn upp í skuldaþak og stjórnvöld hafa þá ekki lengur heimild til þess að greiða fjármuni til lánadrottna sinna. Þá verða til vanskil. Lánadrottnar sem hafa lánað fé fá ekki borgað.
Það er gríðarlega alvarlegt þegar það gerist að fullvalda ríki getur ekki efnt skuldbindingar sínar. Og þegar í hlut á eimvagninn sjálfur sem knýr hagkerfi heimsins, sjá allir hvaða afleiðingar þetta getur haft.
Um þetta mál er fjallað í hinu virta breska tímariti The Economist.
Mjög fá dæmi þekkjast um vanskil af þessu tagi. Argentína gat á sínum tíma ekki borgað og er enn að bíta úr nálinni af því. Hamagangurinn við að aðstoða Grikkland hafði það að markmiði meðal annars að afstýra slíku. Þrátt fyrir fjármálhrunið hér haustið 2008 gat íslenska ríkið staðið við skuldbindingar sína.
En á þessu máli er önnur hlið, stjórnskipunarlegs eðlis, sem er hollt fyrir okkur að velta aðeins fyrir okkur.
Í Bandaríkjunum og raunar í ýmsum ríkjum Suður Ameríku og víðar er sú stjórnskipun við lýði sem veldur í eðli sínu togstreytu þingsins, löggjafarvaldsins og framkvæmdavaldsins. Framkvæmdavaldið í slíkum ríkjum er ekki á ábyrgð kjörins löggjafarþings. Fyrir þessu eru tiltekin rök, sem má segja að sé grundvallaratriði í bandarískri stjórnskipan. „Checks and balances“, er þetta kallað í Bandaríkjunum og hefur meðal annars þann tilgang að stuðla að valddreifingu og eftirliti eins stjórnvald með öðru.
Í Bandaríkjunum þar sem lýðræðisleg hefð stendur styrkum fótum, hefur þetta fyrirkomulag ekki almennt valdið vandræðum. Í Suður Ameríku á hinn bóginn þar sem lýðræðislegar hefðir eru ekki jafn djúpstæðar hefur þetta kallað fram átök og því hefur verið haldið fram að eigi sinn þátt í miklum pólitískum átökum og sem hafi stuðlað að því að lýðræðisfyrirkomulagið hafi oft verið ofurliði borið.
Það er hollt fyrir okkur að velta þessu atriði fyrir okkur.
Í þeirri upplausn sem hér ríkti komu nefnilega fram býsna skýrar hugmyndir um að kollvarpa okkar stjórnskipan og taka upp svipað fyrirkomulag, þar sem forseti hefði álíka stöðu og við þekkjum í Bandaríkjunum og víðar.
Sem betur fer náðu þessar hugmyndir ekki því flugi hér á landi, að þær birtust í formlegum tillögum. En þetta var rætt og fékk talsverðan hljómgrunn um tíma. Við getum svo velt því fyrir okkur hvernig slíkt fyrirkomulag hefði reynst, þar sem átök hefðu staðið á milli framkvæmdavaldsins og kjörins Alþingis. Þar sem framkvæmdavaldið vildi ganga eina leið en þjóðþingið aðra. Ætli það hefði auðveldað okkur að ná tökum á viðfangsefni okkar?