Quantcast
Channel: Einar Kristinn Guðfinnsson
Viewing all articles
Browse latest Browse all 30

Hér varð hrun

$
0
0

 

Úrslit alþingiskonsinganna voru mjög afdráttarlaust og sendu skýr skilaboð. Ríkisstjórnarflokkarnir misstu meirihluta sinn og guldu sögulegt afhroð. Hin raunverulega stjórnarandstaða í landinu, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, náðu ríflegum meirihluta; 38 þingsæti af 63. Með þessu var þjóðin auðvitað að senda skilaboð sem engum fær dulist. Stjórnarstefnunni var hafnað. Stjórnarandstaðan fékk traustsyfirlýsingu.

Alþingi að störfum Vinstri flokkarnir fengu innan við fjórðung þingsæta. Á fylgi þeirra varð sem sagt hrun.

Nú er skyndilega farið að reyna að efast um umboð þessara tveggja flokka. Þetta er ekki bara fráleitt tal. Þetta lýsir fyrst og fremst örvæntingu stjórnarsinna og vina þeirra á meðal álitsgjafa og bloggverja. Stjórnarandstaðan fékk einmitt skýrt umboð. 60% þingmanna koma úr hennar röðum.

Og hvað má þá segja um þá stjórnmálaflokka, VG og Samfylkingu sem mynduðu ríkisstjórnina sem nú lifir sína síðustu lífdaga. Þeir fengu 23,8% heildaratkvæðamagnsins. VG missti 10,8% fylgisins og Samfylkingin 16,9% fylgisins frá síðustu kosningum. Þeir skipa 22,2% þingheims; innan við fjórðung. Þetta er ekkert minna  en hrun.

Hér varð sem sagt hrun, svo endurtekinn sé vinsælasti frasi vinstri flokkanna frá síðasa kjörtímabili.

En aðalatriðið er auðvitað að stjórnarandstaðan frá síðasta kjörtímabili, náði vel vopnum sínum, með meirihluta greiddra atkvæða og ríflegan meirihluta þingsæta. Mas um annað er í besta falli vesældarlegt.

Það breytir ekki hinu að vonandi hafa allir lært eitt ( og helst margt fleira ) af mistökum vinstri stjórnarinnar, sem brátt verður sáluga vinstri stjórnin. Sú ríkisstjórn keyrði flest mál í átök. Hún skeytti ekki um neitt samráð og það samráð sem fram fór var ævinlega svikið. Aðalsmerki hennar var átakapólitík. Hún átti mestan þátt í að grafa undan stöðu Alþingis með slíku háttalagi.

Stjórnvöld þess kjörtímabils, sem nú er ný hafið, munu vonandi tileinka sér aðra háttu. Ekki bara vegna virðingar Alþingis. Heldur vegna þess að öðruvísi ráðum við ekki við þau tröllauknu verkefni sem bíða okkar á næstu árum og fráfarandi ríkisstjórn réði ekki við.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 30