Nú er komið að leiðarlokum á þessari síðu; í bili amk. Ég hef ákveðið að láta staðar numið, hætta færslum á síðunni og loka henni amk. að sinni. Tíminn einn leiðir í ljóst hvort einhvern tímann verður framhald á og þá hvernig.
Ég var með fyrstu stjórnmálamönnum til þess að opna heimasíðu af þessu tagi. Lengstum skrifaði ég efni á síðuna nokkrum sinnum í viku og tjáði mig um alla heima og geyma. Síðan hefur ekg.is hefur verið mitt málgagn. Ég hef skrifað efnið, ráðið efnistökum og haft fullt ritstjórnarlegt sjálfstæði.
Mér hefur fundist þetta gríðarlega mikilvægt og óskaplega skemmtilegt. Ég hef fengið útrás fyrir tjáningarþörf og möguleika á að setja fram skoðanir mínar, eins og mér hefur hentað og þegar mér hefur hentað.
Sjálfum hefur mér fundist þetta skipta máli. Bæði fyrir sjálfa mig og aðra. Stjórnmálamenn eiga að tjá sjónarmið sín og fólkið í landinu á rétt á að vita skoðanir stjórnmálmannanna. Heimasíðan hefur verið fyrir mig vettvangur til þess.
Upp á síðkastið hef ég haldið mig til hlés í þjóðmálaumræðunni og hefur þessa gætt hér á heimasíðunni minni. Eftir að ég varð þingforseti hef ég sparað mig í almennri pólitískri umræðu. Það hef ég talið eðlilegt og fundið viðspyrnu minna krafta annars staðar. Meðal annars auk þingforsetastarfanna, í verkum fyrir kjördæmið mitt.
Nú er því komið að leiðarlokum á þessari síðu. Ég þakka lesendum mínum góða og trygga samfylgd.