Umræður um skattlagningu fjármálafyrirtækja síðustu daga ættu að vekja spurningar um stöðuna á fjármálamarkaði og samþjöppun á þeim sviðum hér á landi. Mikilvægt er að við hugum að þeirri þróun sem hefur orðið og að við ræðum spurninguna um hvernig við viljum sjá skipulag fjármálamarkaðarins. Teljum við nauðsynlegt að svigrúm skapist fyrir fjölbreytni í fjármálaþjónustu? Teljum við eftirsóknarvert að hér geti sprottið upp smærri fyrirtæki við hlið þeirra stóru til þess að skapa samkeppnislegt aðhald? Erum við sátt við að samþjöppun í þessum geira sé miklu meiri hér á landi, en í löndunum í kring um okkur?
Umræður um skipulag fjármálamarkaðarins eru fyrirferðarmiklar erlendis. Þurfum við ekki að ræða svipaðar spurningar hér á landi?
Páll Gunnar Pálsson forstjóri Samkeppniseftirlitsins flutti ræðu á málþingi um framtíð sparisjóðanna 4. maí 2012 og sagði þá meðal annars:
„Það þarf því ekki að hafa um það mörg orð að íslenskur fjármálamarkaður er fákeppnismarkaður. Á slíkum markaði er hætta á því að stærstu fyrirtækin myndi sameiginlega markaðsráðandi stöðu. Við þær aðstæður geta viðkomandi fyrirtæki séð sér hag í því að verða samstíga í markaðshegðun og hámarka þannig sameiginlegan hagnað. Slík hegðun fyrirtækja er skaðleg.“
Í ræðunni sagði hann meðal annars einnig: „Samþjöppun á markaðinum mælist vera rúmlega 3.000 stig eftir samruna Landsbankans og SpKef annars vegar og Íslandsbanka og Byrs hins vegar á hinum svonefnda Herfindahl-Hirschman kvarða, sem notaður eru í samkeppnisrétti til að mæla samþjöppun. Fram að hruni var mældist samþjöppunarstuðullinn hins vegar undir 2.000 stigum en almennt telst markaður mjög samþjappaður ef stuðullinn er hærri en 1.800 stig.“
Þessar staðreyndir þarf að ræða. Það er til dæmis ljóst að skattlagning hins opinbera getur haft mikil áhrif á þessa þróun. Stóru bankarnir hafa fengið mikið samkeppnislegt forskot. Þeir yfirtóku skuldir og eignir gömlu föllnu bankanna á tilteknum verðum. Með því að árangur af innheimtu bankanna hefur orðið betri en verðlagning eignanna gaf til kynna, hefur hagnaður nýju bankanna hefur orðið mjög mikill. Þetta má sjá í ársuppgjörum þeirra, jafnt á tekju- sem og eignahlið. Litlu fjármálafyrirtækin búa ekki við neitt slíkt.
Samkeppni litlu fjármálafyrirtækjanna við þessar aðstæður verður mjög erfið. Skattlagning fjármálafyrirtækja verður því að taka mið af þessum aðstæðum.
Umræður um skipulag fjármálamarkaðarins hefur orðið áberandi í pólitískri umræðu í öðrum löndum. Það á til dæmis við um Bretland. Þar hefur gengið fram fyrir skjöldu, forystumaður jafnaðarmanna þar í landi, Ed Milliband, sem hefur meðal annars lagt til að brjóta upp stærstu bankana og tryggja að markaðshlutdeild þeirra hvers um sig fari ekki yfir 25%. Það er róttæk tillaga, sem hefur fengið mjög blendnar viðtökur. Talið er að ummæli hans – sem gæti miðað við skoðanakannanir orðið næsti forsætisráðherra Breta, - hafi valdið því að hlutabréf í stóru bönkunum lækkuðu myndarlega, sem skaðaði breska ríkissjóðinn, sem á stóran hlut í fjármálastofnunum þar í landi.
Hvað sem þessu líður er ljóst að spurningarnar stendur eftir. Hvernig vilja menn sjá fyrirkomulag bankaþjónustunnar hér á landi? Vilja menn að hún þróist í átt til frekari samruna? Vilja menn stuðla að frekari fjölbreytni? Sé svarið við síðari spurningunni jákvætt, verður ríkið væntanlega að haga skattlagningu í samræmi við það, meðal annars með frítekju/ frískuldamarki. Undan þeirri umræðu verður ekki vikist, hver svo sem niðurstaða hennar verður.