Quantcast
Channel: Einar Kristinn Guðfinnsson
Viewing all articles
Browse latest Browse all 30

Við höfum þetta í hendi okkar

$
0
0

     

Þegar æskuglatt unga fólkið okkar lýkur skólagöngu sinni, bíður þess leit að starfi. Ef sú stöðnun sem er í atvinnulífnu núna, heldur áfram, þá er hætt við að leitin verði alltof oft árangurslaus. Okkar dugmikla unga fólk á annað og betra skilið en að vera sett í  þá aðstöðu. Ella er líka hætt við að við sjáum á eftir þessu fólki úr landi.

528170_480235152044978_429425660_n

Nýverið skilaði  nefnd tillögum sínum um úrbætur í þágu eldri borgara. Þar er gert ráð fyrir margvíslegum kjarabótum þeim til handa sem ég hygg að mikil samstaða sé um,, enda réttlætismál. Ef við búum áfram við þá stöðnun í efnahags og atvinnulífi sem nú er til staðar, er algjörlega borin von um að við getum framkvæmt þessar tillögur. Hversu mjög sem við viljum, hvort sem við erum vinstri menn eða hægri menn. Þau útgjöld sem þessar úrbætur útheimta, verða ríkissjóði um megn, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Þetta sjáum við í tölulegum gögnum sem liggja til grundvallar þeirri vinnu sem unnin var við undirbúning þeirra tillagna sem hér er vísað til.

Við höfum tækifærin í hendi okkar

Við höfum öll væntingar um betra líf, betri kjör, meiri samvistir fjölskyldna, fjölbreyttari tækifæri og um að geta búið okkur gott líf í okkar eigin landi; á Íslandi.

Tækifærin blasa hvarvetna við. Á undaförnum árum höfum við byggt upp gott þjóðfélag, með sterkum innviðum. Við erum tiltölulega ung þjóð, hlutfallslega stór hluti Íslendinga er á vinnualdri og getur þannig lagt sitt af mörkum til verðmætasköpunar á mörgum sviðum. Það er öfundarefni margra annarra þjóða.

Þrátt fyrir áföll undanfarinna ára erum við með öflugt lífeyriskerfi, sem á að geta lagt sitt af mörkum; ekki bara til þess að standa undir lífeyri framtíðarinnar, heldur líka til fjárfestingar og verðmætasköpunar í landinu einmitt núna. En þá þarf viðhorfsbreytingu stjórnvalda. Við þurfum nýja stjórnarstefnu. Sú sem fylgt hefur verið undanfarin 4 ár er fullreynd. Hún mistókst illilega.

En þetta þarf ekki að vera svo erfitt. Við erum svo heppin Íslendingar að eiga góða atvinnuvegi. Við verðum að gefa atvinnulífinu rými til þess að geta vaxið og skapað störf fyrir framtíðarkynslóðir, til þess að standa undir velferð þeirra sem þurfa á stuðningi að halda, svo sem öldruðum og öryrkjum, eins og við viljum örugglega öll. Það gerist ekki ef við festumst í þeirri stöðnun sem einkennir samfélag okkar núna og er afleiðing af algjörlega misheppnaðri stjórnarstefnu.

Sendu skýr jákvæð skilaboð til atvinnulífsins

Við þurfum að skapa frið um sjávarútveginn, þannig að hann geti fjárfest fyrir milljarðatugi strax á þessu ári. Fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar á að vera að senda sterk skilaboð til sjávarútvegsins um að honum sé óhætt að hefja miklar og markvissar fjárfestingar, sem skapa munu fjöldamörg störf alveg tafarlaust. Við þurfum að senda sams konar skilaboð til stóriðjufyrirtækjanna, sem bíða þess að óvissu linni svo að hægt verði að auka umsvif og skapa þúsundir starfa á uppbyggingartíma, einmitt núna þegar við þurfum svo sárlega á þeim að halda. Sama á við um ferðaþjónustu, sem þarf nauðsynlega að fjárfesta fyrir stórfé á næstunni til þess að geta tekið á móti þeirri gríðarlegu fjölgun erlendra ferðamanna á allra næstu árum.Og þannig má tína til endalaus dæmi  úr atvinnulífinu.

Lítil og meðalstór fyrirtæki grátt leikin

En umfram allt þurfum við að gera litlum og meðalstórum fyrirtækjum kleyft að láta fyrir sér finna. Þar verða nefnilega lang flestu störfin til. Það gerum við með því að einfalda regluverk og lækka skatta og álögur sem dembt hefur verið yfir þessi fyrirtæki á síðustu árum. Meira en100 skattabreytingar sem hafa verið gerðar á síðustu fjórum árum, hafa skaðað þessar atvinnugreinar svo ómælanlegt er. Dæmi eru um að lítil skattabreyting hafi kallað á hundruð þúsunda kostnað fyrir lítil fyrirtæki. Og er þá ótalinn kostnaðurinn vegna hærri gjalda og skattstigs. Flækjustigið er orðið slíkt, að lítil fyrirtæki þurfa að ráða dýra sérfræðinga til þess að halda utan um pappírsverkin. Það skapar ekki verðmæti. Það býr til kostnað og flækjustig. Við þurfum að lækka tryggingargjöldin, sem ríkisstjórnin stór hækkaði. Þau leggjast nefnilega á launakostnaðinn og gera það að verkum að dýrt er að ráða fólk til starfa. Þau eru þess vegna til þess fallin að eyðileggja störf, einmitt þegar við þurfum á því að halda að skapa störf.

Vilji er allt sem þarf

Það er ekkert mjög flókið að breyta þessu. Það þarf fyrst og fremst vilja og stefnubreytingu. Vilji er allt sem þarf, eins og einu sinni var kveðið.

Og það er gríðarlega mikið í húfi. Því ef við höldum áfram á sömu braut, heldur fólk áfram að flytja úr landi, unga fólkið okkar sér ekki framtíð í því að búa hér, kjör eldra fólks og öryrkja munu versna áfram, lífskjörin verða ekki  samkeppnisfær við önnur lönd, heilbrigðisþjónustan og menntakerfið munu drabbast niður og Ísland verður ekki lengur eftirsótt til búsetu.

Hér er lykilorðið breyting. Í dag höfum við það í okkar hendi að kalla fram þessar breytingar. Um það snúast alþingiskosningarnar í dag.


 

 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 30