Quantcast
Channel: Einar Kristinn Guðfinnsson
Viewing all articles
Browse latest Browse all 30

Heimur batnandi fer

$
0
0

Ein af snilldarþýðingum Magnúsar Ásgeirssonar er kvæði þýska 19. aldar skáldsins Heinrichs Heine, Heimur versnandi fer. Flest höfum við örugglega líka tekið okkur þessi orð í munn; heimur versnandi fer. Ef ekki í fullri alvöru, þá að minnsta kosti í hálfkæringi.

En er það svo? Fer heimurinn versnandi? Ekki er það svo, segir Allister Heath ritstjóri City AM sem er viðskiptavefur í Bretlandi, en hann skrifar athyglisverða grein í Daily Telegraph um þessi mál. Það er ómaksins vert að rekja niðurstöður hans.

1earth[1] Margt bjátar á í henni veröld og heimsgæðunum misskipt, en sterk rök má samt færa fyrir því að heimur batnandi fari.

1.  Eðlileg viðbrögð okkar sem fylgjumst með fréttum frá víðri veröld af stríðum og hörmungum, eru væntanlega þau að hernaðarátök séu meiri og hörmulegri en nokkurn tíma áður. En þessu er einmitt öfugt farið. Á fyrsta áratug okkar aldar hafa færri  látist í stríðsátökum en nokkru sinni, frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar. Undantekningin er síðasta ár vegna ástandsins í Sýrlandi. Það breytir þó ekki þróuninni. Stríð eru færri en nokkru sinni og færri láta lífið.

Markaðsbúskapur og aukin alþjóðavæðing viðskiptalífsins á þarna hlut að máli. Samskipti, viðskipti, fjárfestingar og ferðalög stuðla að auknum friði.

2. Þrátt fyrir allt hefur líka dregið úr mengun í heiminum. Árið 1900 lést einn af hverjum 500 úr kvillum sem rekja mátti til mengunar andrúmsloftsins af völdum opins bruna, svo sem við húshitun, eldamennsku og þess háttar. 0.18% líkur voru á að fólk létist af þessum völdum árið 1900. Í dag er áhættan 0.04%, eða einn af hverjum 2.500 og um miðja þessa öld verða samsvarandi tölur 0.02%, eða einn af hverjum 5.000.

3. Lífslíkur manna hafa líka vaxið mikið. Í vanþróuðustu heimsálfunni, Afríku hafa lífslíkur aukist úr 50 árum í 56 ár, frá árinu 2000 til ársins 2011. Á hverjum áratug frá árinu 1960 hafa lífslíkur á Indlandi, næst fjölmennasta ríki heims, aukist um fjögur og hálft prósent á hverjum áratug. Í löndunum fyrir sunnan Sahara, þar sem barnadauði er þó hvað hæstur, er hann þrátt fyrir allt „aðeins“ þriðjungur þess sem hann var í Liverpool  árið 1870, þó þjóðarframleiðsla á mann sé einvörðungu helmingur þess sem hann var í Liverpool á 19. öldinni. Og dánarlíkur nýfæddra barna í heiminum hafa lækkað úr 23%  á sjötta áratug síðustu aldar í 6% núna og spár ganga út á að þær minnki um helming til ársins 2050. Þarna veldur mestu að fæðan sem menn neyta er betri sem og frárennsli og aðrar hreinlætisaðgerðir.

4. Menntunarstig hefur líka aukist á síðustu árum. Ástandið er auðvitað fráleitt gott alls staðar, eins og kunnugt er. Meðaltalstölur sem taka til allrar heimsbyggðarinns sýna okkur þó að í dag eru um 24% ólæsir, en voru um 70% í byrjun 20. aldar. Í Bretlandi, gamla heimsveldinu, er þróunin hins vegar í senn athyglisverð og kvíðvænleg. Lestrarkunnátta og lesskilningur er þannig lakari hjá yngra fólkinu en því sem komið er yfir miðjan aldur.

5. Þó margt þurfi að bæta þegar kemur að kynjajafnrétti og ástandið sé hörmulegt í einstökum ríkjum er það athyglisvert að atvinnuþátttaka kvenna hefur aukist úr því að vera 12% alls vinnuafls árið 1900 í 40% núna og fer vaxandi.

6. Jafnvel þegar kemur að hinum umræddu loftslagsbreytingum þá hefur því verið haldið fram að enn sem komið er hafi þær í heild sinni verið til góðs. Gallinn er hins vegar sá að þegar fram í sækir og líður á þessa öldina mun þetta snúast við.

En þegar allt er samantekið verður ekki annað séð en að við höfum gengið til góðs götuna fram á veg, eins og listaskáldið Jónas kvað.  Heimsósóminn sem gamli Heinrich Heine orti um og Magnús Ásgeirsson veitti okkur löndum sínum aðgengi að með þýðingu sinni, virðist því ekki vera í samræmi við þróunina á síðustu 100 árum eða svo. En af því að kvæðið er svo áhugavert og þýðingin svo góð er rétt að ljúka þessum pistli á þessu kvæði.

Heimur versnandi fer

 

Ég er hryggur. Hérna fyrrum

hafði veröldin annað snið.

Þá var allt með kyrrum kjörum

og kumpánlegt að eiga við.

 

Nú er heimur heillasnauður

hverskyns eymd og plága skæð.

Á efsta lofti er Drottinn dauður

og djöfullinn á neðstu hæð.

 

Nú er ei til neins að vinna,

nú er heimsins forsjón slök.

Og væri ekki ögn af ást að finna

allt væri lífið frágangssök.

 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 30